Búri opnar sína fyrstu einkasýningu, SHADOW SELF, í Gallery Port laugardaginn 10. janúar. (15:00-17:00) Sýningin stendur út janúar.
Á sýningunni má sjá fígúratíf verk með sterka áherslu á andlitsmyndir. Verkin spretta úr alls kyns áhrifum, meðal annars lestri bóka — sérstaklega sjálfsævisagna og endurminninga — sem og rómverskri goðafræði, sögu, heimspeki, sálfræði og listasögu. Þótt rætur verkanna séu klassískar, er farið frjálslega með viðfangsefnin og þau sett í samtímalegt samhengi.
Litir spila stórt hlutverk í sýningunni og vísa bæði til bernsku á níunda og tíunda áratugnum og til skuggahliða mannsins.
Eitt stærsta verkið á sýningunni er samansett úr 576 smærri verkum sem saman mynda pixlaða mynd af Marcus Aurelius. Verkið byggir á málverki sem einnig er til sýnis. Hver eining er 10 × 10 cm plata í flötum lit og verður verkið selt í stökum plötum á hófsömu verði. Af þeim sökum mun verkið aðeins vera til í sinni heild í upphafi sýningar.
Verkið er bæði leikur að upplausn og óður til óvaranleikans, auk þess sem það er tilraun til að gera list aðgengilegri með upplagi og verðlagningu. Þessi verk eru afhent við kaup.
Að neðan má sjá svipmyndir frá vinnslu sýningarinnar.